MYNDASÖGUHÁTÍÐ
SIGLUFJARÐAR 2025

//
15-17. ÁGÚST
//
OPNAÐ ER FYRIR
UMSÓKNIR Í MARS

SILGUFJÖRÐUR COMICS FESTIVAL
Follow us on Instagram Find us on Facebook

Velkomin á Myndasöguhátíð Siglufjarðar

Fyrsta myndasöguhátíð Íslands (og líklega sú nyrsta í heimi)

Siglufjörður er heillandi sjávarþorp og er nyrsti kaupstaðurinn á Íslandi og stendur við lítinn, samnefndan fjörð, undir háum fjöllum. Fáir bæir á Íslandi eiga sér jafn viðburðaríka sögu og er mannlíf bæjarins fjölbreytilegt og ýmis konar félags- og menningarstarf blómlegt. Það er í þessum fagra firði sem við erum stolt af því að halda fyrstu Myndasöguhátíð Íslands.

Siglufjörður skipar sérstakan sess í íslenskri menningarsögu, meðal annars sem fæðingarstaður íslenskrar myndasöguútgáfu. Það var hér sem Siglufjarðar Prentsmiðjan skráði sig í sögubækurnar á fjórða áratug 20. aldar og var fyrst til að gefa út myndasögur á íslensku. Þar með hófst ástríða fyrir sjónrænni frásagnarlist sem heldur áfram að dafna um allt Ísland.

Með tilkomu Myndasöguhátíðarinnar á Siglufirði er komið að nýjum kafla í menningarsögu bæjarins og verður þetta fyrsta myndasöguhátíð Íslands Þannig sýnum við að heimur myndasögunnar þrífst og dafnar á ólíklegustu stöðum. Myndasöguhátíðin á Siglufirðri er til heiðurs myndasöguforminu þar sem fjölbreytileika miðilsins er gert hátt undir höfði. Fjölbreytt dagskrá verður í boði og eitthvað fyrir alla. Listamenn verða með sýningarbása, „Drekktu og Teiknaðu“ kvöld með lifandi tónlist, spennandi sýningar, fyrirlestrar og teiknimyndir sýndar. Viðburðir fara fram víðsvegar um Siglufjörð og gefst gestum tækifæri að upplifa bæinn ásamt því njóta viðburða hátíðarinnar. 

Hvort sem þú ert upprennandi höfundur, áhugamaður um myndasögur eða bara forvitin að vita meira um níundu listgreinina, þá verður þessi myndasöguhátíð örugglega einstök upplifun fyrir þig! 

Við hlökkum til þess að taka á móti ykkur hvort sem þið búið nær eða fjær og bjóðum ykkur velkomin á þennan sérstaka viðburð.
 

Stuðningsaðilar

Fjallabyggð
Segull 67
Merki-Safnsins
Svart
Thessaloninki Aniamtion Festival
sjova
oddi
LA Comics Festival
sigluneslogo
Siglo Sea
Athyduhusid
CCB
siglo

LISTAMENN

Heimafólk og alþjóðlegir gestir sem eiga verk í sýningarbásum.

2024 2024

DAGSKRÁ

Uppgötvið myndasögur, ræðið við listafólk, lærið, leikið og hlustið í spennandi dagskrá hátíðarinnar.

Föstudagur 30. ágúst

  • 14:00 - 17:00 Hallgrímur Helgason, sýning í Alþýðuhusið

Stríðsfórnarlömb - Með sýningunni Stríðsfórnarlömb vill listamaðurinn beina athyglinni frá barnamorðunum sem fylla síma okkar allan sólarhringinn að fólkinu sem ber ábyrgð á þeim og fólkinu sem gæti mögulega stöðvað þau. Athafnaleysi er afstaða. Á sýningunni eru ný málverk sem öll eru portrett af stjórnmálafólki og þjóðarleiðtogum
vorra daga og spanna skalann frá Pútín til Biden. Allt þetta stjórnmálafólk verður dæmt af samstöðu sinni með þjóðarmorðunum tveimur. Allt er það Stríðsfórnarlömb. 

Hallgrímur Helgason er þekktur fyrir skáldsögur sínar og skrif en hefur einnig sýnt myndlist víða um lönd, á einka- og samsýningum. Hann hefur nær eingöngu haldið sig við málverk og teikningar á löngum ferli og á verk í eigu safna hérlendis og erlendis. Þar á meðal eru FRAC-Poitou Charentes í Angouleme í Frakklandi og Metropolitan-safnið í New York. Sýning hans í Kompu er ein af fjórum sem hann heldur á þessu ári. Á útmánuðum sýndi hann Hópmyndir af sjálf í listamiðstöðinni Nordatlantens brygge í Kaupmannahöfn. Hluti þeirrar sýningar verður settur upp í Nordatlantisk hus í Óðinsvéum í lok ágúst. Og í október opnar miðferlis-yfirlitssýning hans í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. 

Sýningin verður opin frá 14:00 til 17:00 á meðan hátíðin stendur yfir.

  • 16:00 Siglufjarðarprentsmidja, sögusýning í Söluturninum Gallerí

Vissir þú að myndasögumenningin á Íslandi á ákveðnar rætur á Siglufirði?

Myndasögur og myndasögublöð bárust fyrst til Íslands með bandarískum hermönnum um og eftir seinni heimstyrjöld. Undir lok fjórða áratugarins hóf Siglufjarðarprentsmiðja prentun á Tarzan bókum, og síðar útgáfu á íslenskum þýðingum fjölda þekktra myndasögublaða á borð við Tarzan, Súpermann, Leðurblökumanninn, Köngulóarmanninn, Gög & Gokke og Tomma & Jenna. Þessi íslensku blöð voru seld á bensínstöðvum og sjoppum um allt land fram undir lok 20. aldar og voru lesin bæði af börnum og fullorðnum. Fyrir vikið urðu þessar myndasöguhetjur stór þáttur í menningarlegu uppeldi íslenskra barna, og eru margar þeirra enn í miklu uppáhaldi.

Komið við í Söluturninn við Aðalgötu til að kynnast nánar sögu þessarar merkilegu útgáfustarfsemi, sem fór fram í litlum bæ úti á landi, og hafði langvarandi áhrif á menningarlíf Íslendinga.

Um sýningarstjórann:

Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður fæddist 1949, útskrifaðist úr Myndlistar- og handíðaskólanum, og var eftir það myndlistarkennari um árabil. Hann beitti sér fyrir stofnun Síldarminjasafns Íslands og stýrði því í rúma tvo áratugi. Hann hefur alla tíð búið á Siglufirði og þekkir því bæinn og sögu hans afskaplega vel, og segja má að rauði þráðurinn í ævistarfi hans, bæði uppbyggingu Síldarminjasafnsins og ritstörfum í seinni tíð, hafi verið að varðveita og miðla sögu staðarins, mikilvægi hans og sérstöðu á Íslandi.
 

Sýningin verður í gangi allan septembermánuð.

  • 17:00 Sýning Brian Pilkington í Síldarminjasafninu

Upplifðu heillandi heim íslenskra trölla með augum hins virta teiknara Brians Pilkington. Á þessari einstöku sýningu eru sýndar frummyndir af tröllum og jólasveinum sem fanga kjarna þjóðlegra hefða Íslendinga.

Nálgun hans er hefðbundin - allt unnið af næmni handanna. Með með verkfærum sínum, penslum, vatnslitum og pappír, vinnur Brian myndirnar sínar af einstæðri vandvirkni og færir persónurnar til lífandi tilfinninga í hinni sérstæðu íslensku birtu. Hver mynd máluð af ríkri ást og einstæðri áherslu á öll smáatriði - allt frá nákvæmum fugla- og landslagsmyndum til klæðnaðar, skartgripa og húsbúnaðar tröllsins – og allt er þetta vitnisburður um persónulega ferð Brians á vit íslenskrar náttúru, töfra þjóðsagnanna og jólahefða.

Verk hans eru öllum Íslendingum auðþekkjanleg, jafnt ungum sem öldnum, og hafa haft sitt að segja í að skerpa mynd okkar af tröllum og jólasveinum.

Ekki missa af þessu sjaldgæfa tækifæri til að upplifa í návígi hið frábæra handverk sagnameistarans Brian Pilkington.

Sýningin verður opnuð 30. ágúst í Síldarminjasafninu og stendur út septembermánuð.
 

  • 20:00 - 21:00 Drekktu og teiknaðu í Segli 67

Verið með á sérstökum „drink and draw“ viðburði við lifandi djasstónlist akureyska tví-/þríeykisins Baby Bop!.

Teygað og teiknað er samkoma þar sem fólk teiknar og krotar á meðan það nýtur drykkja sinna. Í Segli 67 er afslappað umhverfi þar sem þú getur tjáð þig á listrænan hátt og í félagi við aðra. Auðvitað eru ekki allir listamenn, en allir geta teiknað! Teygað og teiknað er ekki myndlistarnámskeið, heldur samkoma þar sem bæði algjörir byrjendur og vanir teiknarar koma saman og búa til eitthvað sérstætt. Engin skuldbinding — bara hrein og afslöppuð skemmtun!

Teygað og teiknað viðburðirnir hafa notið vinsælda á Siglufirði, þar sem við hittumst mánaðarlega og njótum staðarbjósins hjá gestgjafa okkar Segull 67. 
Að þessu sinni tökum við þetta á næsta stig og njótum lifandi djasstónlistar á meðan penninn dansar!

Þau sem neyta ekki áfengis geta fengið sér hressandi gos á barnum og teygað það.

Við munum útvega teikniáhöld og pappír en þér er líka velkomið að koma með þín eign.

Ekki missa af þessum sérstaka viðburði þar sem myndlist mætir tónlist og drykkjum og djammi. 
Sjáumst þar í sköpun og skemmtun!
 

Babybop er tónlistarframtak sem byrjaði sem hugmynd tveggja gítarleikara Dimitrios Theodoropoulos og Jóels Arnar Óskarssonar árið 2021. Jóel var þá nemandi í Tónak, Tónlistarskólanum á Akureyri, þar sem Dimitrios hefur kennt á gítar síðan 2011. 
Babybop hefur frá upphafi flutt Jazz-standarda og sækir innblástur frá blús/swing/bop og latínu tímanum. Einnig er Babybop vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk sem hefur áhuga á spuna - að vinna og spila saman. 
Árið 2024 bauð Babybop söngkonunni Erlu Mist, söngkennara í Tónak, að ganga til liðs við dúettinn sem þar með er tríó þeirra Erlu, Dimitrios og Elíasar – rödd, gítar og bassi. 
Babybop leggur áherslu á skemmtun, skilning og spuna.

  • Aðgangur er ókeypis á alla viðburði.

Laugardaginn 31. ágúst

  • 11:00 - 12:00 Fyrirlestur að morgni eftir Einar V. Másson í Alþýðuhúsinu

Einar Valur Másson, formaður Ííslenska Myndasögusamfélagsins, fer með erindi þar sem hann lýsir framtíðarsýn sinni á hlutverk myndasagna og grafískra skáldsagna á Íslandi. Í erindinu færir hann rök fyrir hvernig þessi látlausi miðill getur hafið Ísland til vegsemdar og virðingu, auk þess að benda á helstu hindranirnar á leiðinni og hvernig megi riðja þeim úr vegi.

Einar Valur Másson er margverðlaunaður myndasöguhöfundur, myndskreytir, þýðandi og ritstjóri. Árið 2019 stofnaði hann Íslenska Myndasögusamfélagsins (ÍMS) ásamt Ötlu Hrafney Önnudóttur og Védísi Huldudóttur og gegnir nú formannsstöðu innan félagsins. Hann hefur ritstýrt fjölda myndasagna, þ.á.m. í kringum Reykjavík Fringe Festival og hefur hlotið viðurkenningar fyrir. Árið 2022 þýddi Einar bókina Understanding Comics eftir Scott McCloud yfir á íslensku sem ÍMS gaf svo út. Var Einar einkjörinn heimsmeistari í myndasögum árið 2023 á heimsmeistaramótinu í Oulu, Finnlandi. Hann er meðhöfundur vikulegu vefmyndasögunnar Bruce the Angry Bear, langlífustu vefseríu Íslands.

 

  • 13:00 - 18:30 Sýningarbásar listamanna í Segli 67

Sýningarbásarnir eru hjarta og sál hátíðarinnar þar sem hin fjölskrúðuga sveit listamanna nær og fjær koma saman og sýna sköpunarverk sín, myndasögur, myndskreytingar, prent- og handverk, eða eitthvað utan skilgreininga. 

En hér er ekki að ræða eitthvað hefðbundið markaðstorg, hingað er hægt að koma til að spjalla við listafólkið sjálft, að gægjast bak við tjöldin þar sem sköpunarferlið reynist vera eins fjölbreytt og fólkið er ólíkt. Ef eitthvað heltekur þig er jafnvel möguleiki á að eignast eitthvað fallegt og verðmætt, jafnvel nýja vini.
 

Hópur af listamönnum fara saman inn á bar. Þú mátt botna þennan brandara þegar þú mætir. 

 

  • 14:00 - 16:00 Hittu listamanninn í Segli 67

Hittu listamanninn, Brian Pilkington! Brian mun teikna uppáhalds sögupersónur sínar fyrir hátíðargesti.

  • 21:30 - 22:30 Holy Hrafn tónleikar í Segli 67

Undirbúðu þig fyrir raftónlistardrag sem mun koma þér í eða úr jafnvægi, það veltur allt á þér. Dansgólfið verður stráð glimmerglitri þegar Holy Hrafn stígur fram á svið þar sem silkimjúkir straumar munu flæða og glæða í gestum.
 

En hver er þessi svokallaði Holy Hrafn? Samkvæmt Dr. Vigdísi Völu, þá skapar Óli Hrafn Jónasson, sem gengst einnig undir nafninu Holy Hrafn þegar vel viðrar, allt frá sveiflandi grúvum yfir í grafískar bókmenntir og teiknimyndasögur. Í þeim fléttar hann raunveruleikann saman við hugmyndir, ranghugmyndir, tilvísanir í dægurmenningu sem og einkaminningar sem koma fæstum við, en útkomuna ætti þvert á móti enginn heilvita aðili láta framhjá sér fara. Eins og flestir þá á Holy Hrafn sér uppáhaldssjoppu en til að komast að því hver hún er má ekki láta sig vanta á viðburði og bera drenginn augum og eyrum. Jú eða lesa bara bókina.

  • Aðgangur er ókeypis á alla viðburði.

Sunnudaginn 1. september

  • 10:00-14:00 Búðu til þína eigin myndasögu: Vinnustofa með Emmu Sanderson í sal Ráðhúss Fjallabyggðar Siglufirði, 2 hæð

Kafaðu inn í heim myndasögugerðar með verklegri vinnustofu okkar á Myndasöguhátíðinni! Hvort sem þú ert reynslumikill listamaður eða forvitinn byrjandi, þá skaltu taka þátt og skapa þína eigin stuttu myndasögu (1-4 síður). Í afslöppuðu umhverfi færðu frelsi til að koma og fara eftir hentugleika og kanna listina að sjónrænni frásögn.

Vinnustofan er undir leiðsögn Emmu Sanderson, reynds grafísks hönnuðar, og er opin öllum aldri og hvetur alla til að taka þátt í sköpun. Emma mun veita ráðgjöf um undirbúning útgáfu og bestu hönnunarvenjur og leiðbeina þátttakendum í gegnum ferlið. Þátttakendur munu fá tækifæri til að nota hefðbundna penna og indverskt blek, sem bætir ekta blæ við myndasöguna. Vertu tilbúin(n) að losa um ímyndunaraflið, læra með því að gera, og taktu með þér heim þína eigin myndasögu!

Emma Sanderson er grafískur hönnuður, vegglistamaður og teiknari með yfir 20 ára reynslu. Hún hóf feril sinn hjá auglýsingastofum í Ástralíu og Skotlandi en hefur síðustu fjögur ár unnið í „for-purpose“ geiranum með ástralskri frumbyggja heilbrigðisstofnun. Innblásin af því að hafa stýrt frumbyggja listamiðstöð í afskekktu eyðimerkursamfélagi í Vestur-Ástralíu, nýtir Emma hæfileika sína til að takast á við félagsleg málefni í gegnum vörumerkjagerð, teikningar og markaðssetningu. Hún hefur einnig stofnað og stjórnað listamannarýmum og haldið fjölda vinnustofa, sýningar og viðburði sem stuðla að samfélagslegri þátttöku og sköpun.
 

  • 13:00-16:00 Vinnustofa í borðspilum í boði Goblin Spilamiðstövarinnar í Segli 67

Á spilaborðum getur þú sótt ævintýrin, en hér mun Goblin Spilamiðstöð bjóða upp á fjölbreytt úrval fyrir þá sem hafa áhuga á herkænskuspilum, hlutverkaleikjum, safnspilaleikjum ásamt öðrum borðspilum. Fólk á öllum aldri mun finna eitthvað við sitt hæfi, það eina sem þarf til er ævintýraþrá!

Ef svo vill til að þú finnir spil eða leiki sem heillar þig þá mun Goblin heppilega vera með pop-up verslun á staðnum.

  • 13:00-16:00 Black Beard Miniatures í Segli 67

Að auki mun gefast færi á að berja augum á Warhammer meistaraverkum Instagramstjörnunnar hans Ólafs Ólafssonar, sjálftitlaða Siglufjarðarhetju og „Warhammer nörd frá Siglufirði‟, einnig þekktur sem Black Beard Miniatures. Hafa módelverk hans farið víða, unnið til viðurkenningar Golden Demon og verið birt í útgáfu White Dwarf þar sem einstöku aðferðum hans eru gerð skil.

  • 13:00-16:00 Hetju Myndasögur pop-up shop í Segli 67

Hetju Myndasőgur er Ìslenskt fyrirtæki sem gerđi samming viđ Marvel um ađ gefa ùt myndasőgurnar þeirra á Ìslensku, í fyrsta sinn ì 30 ár!

Það er tími til að kasta teningunum og láta vaða!

 

  • 17:00-19:00 Teiknimyndir Fyrir Krakka í Síldarminjasafninu (við Gránahúsið)

Vertu með okkur í ógleymanlegri stund fjölskylduskemmtunar á Síldarminjasafninu þar sem rauði dregillinn verður lagður út fyrir samvinnuverkefni okkar með Thessaloniki Animation Festival (TAF). Hér munu krakkar, sem og fullorðnir, geta sótt sérvaldar teiknaðar stuttmyndir úr safni TAF, sniðið að þessum viðburði af sýningarstýru TAF, Chrisa Gkouma. Gjaldfrjálst er inn á þessar töfrandi sýningar sem ekki má láta framhjá sér fara!

Thessaloniki Animation Festival er árlegur viðburður sem haldinn hefur verið í Thessaloniki í Grikklandi frá árinu 2015. Þar er lögð áhersla á kennslu, menningu og sköpun teiknimynda. TAF hefur sl. 9 ár starfað með og sýnt verk alþjóðlegra listamanna í samstarfi við sveitarfélög, stofnanir og önnur félög. Hátíðin hefur hýst þekkta listamenn líkt og Rony Oren og Tim Allen ásamt komið Balkan Animation Forum (BAF) á framfæri árið 2020 til að rækta tækifæri og styrkja sambönd innan iðnaðarins. Hafa yfir 49.000 gestir sótt hátíðina frá upphafi.

  • Aðgangur er ókeypis á alla viðburði.

2024

SÝNINGARSTAÐIR

Hátíðin fer fram á fjölda sýningarstaða í miðbæ Siglufjarðar - Skoðaðu hátíðina og kannaðu bæinn í leiðinni.

Segull 67

SEGULL 67

Segull 67 er lítið handverksbrugghús í fjölskyldueigu í miðbæ Siglufjarðar. Brugghúsið er samstarfsverkefni eigandans, Matta og föður hans, afa og annarra fjölskyldumeðlima þar sem allir leggja hönd á plóg. Segull 67 er til húsa í gömlu fiskvinnsluhúsi sem hefur verið endurnýjað og hannað til þess að hýsa bruggverksmiðju og ýmiskonar viðburði. 

Nafnið „Segull“ hefur sérstaka þýðingu fyrir fjölskylduna og vísar í segulnál áttavita sem óháð staðsetningu vísar alltaf í norður. Að auki hefur talan 67 verið fjölskyldunni mikilvæg. Langafi Matta ók vörubíl með númeraplötunni F67 og afi hans fór sjós með bátsnúmerið SI67. 

Brugghúsið býður upp á leiðsögn um aðstöðu sína og starfsemi og einnig má finna þar viðburðarrými fyrir ráðstefnur, veislur, sýningar, íþróttaviðburði, lifandi tónlist og fleira.

Sildarminjasafn Íslands

The Herring Era Museum

Síldarminjasafnið er stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins. Í þremur ólíkum húsum kynnumst við síldveiðum,vinnslu á silfri hafsins og mikilvægi Síldarinnar í sögulegu-og efnahagslegu samhengi. Mikilvægi síldarvinnslunar í efnhagslegri uppbyggingu þjóðarinnar er það mikil að oft er talað um Síldarævintýri. Róaldsbrakki er gamla norska söltunarstöðin og þar er flest eins og áður, vistarverur síldarstúlknanna, kontórinn og vinnuplássið. Í Bátahúsinu og bræðsluminjahúsinu Gránu fara tíðum fram tónleikar og listsýningar. Í Gránu er safn um sögu bræðsluiðnaðarins sem löngum hefur verið kallaður fyrsta stóriðja Íslendinga. Þar hefur verið komið upp lítilli síldarverksmiðju frá 1935-40. Í Bátahúsinu liggja skip og bátar við bryggjur þar sem hafnarstemningin frá því um 1950 er endursköpuð.

Gallerí Söluturninn

Söluturninn Gallery

Gallerí Söluturninn hefur verið starfrækt frá árinu 2018. Allmargar sýningar hafa verið haldnar þar árlega; skúlptúrar Árna Páls Jóhannssonar, málverkasýningar Arnars Herbertssonar, Kristjáns Jóhannssonar, Guðmundar Kristjánssonar, Írisar Ólafar Sigurjónsdóttur og Örlygs Kristfinnssonar. Samsýningar og loks var þar sýning á glerlistaverkum Piu Sverrisdóttur. Söluturninn er nafn á verslun þar sem um áratugi var aðallega höndlað með sælgæti, gosdrykki og dagblöð. Húsið var byggt árið 1905 fyrir verslun og lauk rekstri þar 1999. Þá gekk það í endurnýjun lífdaga með gagngerri viðgerð sem nokkrir áhugamenn um sögu Siglufjarðar stóðu fyrir. Söluturninn er í eigu Guðnýjar Róbertsdóttur og Örlygs Kristfinnssonar.

Alþýðuhúsið á Siglufirði

Alþýðuhúsið in Siglufjörður

Í desember 2011 festi Aðalheiður S. Eysteinsdóttir kaup á Alþýðuhúsinu á Siglufirði í þeim tilgangi að útbúa þar vinnustofu, heimili og leikvöll lista. Endurgerð hússins lauk 19. júlí 2012 og ævintýrið hófst. 

Markmið með starfseminni í Alþýðuhúsinu er að menning verði hversdagslegur hluti í lífi fólks, þannig að ungum sem öldnum finnist listir og skapandi hugsun eiga erindi við sig. Að skapa leikvöll listamanna og skapandi fólks til að framkalla list sína og vera vettvangur samræðna og tengsla á milli fólks hvaðanæva að. 

Í Alþýðuhúsinu er staðið fyrir víðtækri menningarstarfssemi ár hvert. Áhersla er á myndlist, en starfsemin telur einnig ýmis skapandi samstarfsverkefni, þrjár stórar listahátíðir, jaðartónlist, smiðjur, og vettvang fyrir kraftmikið fólk til að framkvæma eigin verk. Rithöfundar, meistaranemar og tónskáld hafa dvalið um tíma í húsinu við sína iðju og í fimm ár stóðu Arnar Ómarsson og Ari Marteinsson fyrir hugmynda- og samstarfssmiðjunni REITIR workshop sem lauk með útgáfu bókar árið 2017. 

Sérstaða hússins er heimilislegur blær sem umvefur alla starfsemina, listafólkið og gesti sem þangað sækja. Enginn aðgangseyrir er á viðburði og fólk gengur inn í flæðið sem heimilið er, dagskrána sem áætluð er frá morgni til kvölds, eins og hluti af heild eða fjölskyldu. Eldhúsið er hjarta hússins eins og á flestum heimilum, en þar koma allir saman til gæðastunda áður en og eftir að listviðburðir eiga sér stað. 

Húsið er í stöðugri notkun ýmist sem vinnustofa, heimili eða viðburðarými og með sýningarhaldi í Kompunni. Galleríið Kompan var stofnuð í Kaupvangsstræti á Akureyri 1998 en hefur síðastliðin 10 ár verið starfrækt í Alþýðuhúsinu. Listamönnum sem sýna í Kompunni er boðið að dvelja í húsinu um skemmri tíma við undirbúning og í sumum tilfellum gerð sýninga sinna. Sú dvöl reynist oft næringarríkt samtal listamanna og gefur tilefni til frekari kynni aðkomufólks af menningu staðarins. 

Menningarviðburðir eru skipulagðir að jafnaði þrisvar í mánuði. Myndlistarsýningar í Kompunni, Sunnudagskaffi með skapandi fólki og viðburðir í sal. Suma mánuði eru viðburðir um hverja helgi, allt eftir því hversu spennandi listafólk sækir að. Kostirnir við listamannarekin rými á borð við Alþýðuhúsið eru möguleikar á að hliðra til og bæta við eftir því sem andinn blæs hugmyndum í brjóst. Flest listafólk og skapandi einstaklingar sem Aðalheiður býður þátttöku eru spennir fyrir möguleikunum og fagna boðinu og nánast undantekningarlaust verða til ógleymanleg ævintýri. 

Alþýðuhúsið á Siglufirði hefur á þessum 10 árum sannað sig sem áhugaverður vettvangur lista og öðlast sess í hugum fólks sem menningarhús. Það sýnir sig með fjölda gesta er sækja viðburði, stundum þannig að færri komast að en vilja. Á þessum 10 árum hafa um 200 viðburðir farið fram. Um 2000 listamenn og skapandi einstaklingar hafa sýnt, tekið þátt í smiðjum eða komið fram með aðra menningarviðburði í Alþýðuhúsinu.